Monday, April 14, 2008

Ofvirki nágranninn var að fá sér mótorhjól.

Þannig að auk barsmíða af ýmsu tagi, sagar- púss- og vélvirkjunarhávaða langt fram eftir öllu, verðum við þess heiðurs aðnjótandi að fá að hlusta á manngarminn taka nokkra hringi í kringum hverfið á kvöldin. Og að sjálfsögðu um það leyti sem að barnið á að fara að sofa. Nú í kvöld var það ekki einu sinni heldur þrisvar sem á komst kærkomin ró, að helvítis hljóðmengunin átti leið framhjá húsinu okkar. Það eiga að vera lög gegn svona raski á kvöldin, í það minnsta ættu taugaveiklaðir foreldrar að hafa einhver forréttidi í svona málum.

Venezúelskur vinur okkar sagði að í Sviss mætti varla prumpa á kvöldin, hvað þá sturta niður, til að raska ekki ró nágranna eftir vissan tíma. Sem er kannski örlítið öfgakennt ef satt er. Við fengum reglulega kvartanir frá fyrrum alsírskum nágrönnum af neðri hæðinni yfir hávaðasömu barni okkar, auk velvalinna stunda þar sem kústskapti var dúndrað í loftið. Ég gat þó oft á tíðum skilið að þeim þætti ekki gaman að vera vakin klukkan hálfátta á morgnana um helgar, þar sem á þeim tíma áttu þau ekki börn sjálf en svefnherbergið þeirra er undir svefnherbergi stráksins eldri. 

Þetta er að sjálfsögðu fylgifiskur þess að búa í návígi við annað fólk. Við höfum val um að flytja á afskekktari svæði landsins. En ég skal með glöðu geði strika út hvers kyns hávaðaseggi sem ekki eru með hjóðdempara á sér - og mér finnst ég líka geta gert þá kröfu að þurfa ekki að hlusta á ástarleiki nágrannanna en það er önnur umræða.

Mér er enn í fersku minni fjarstýrða meinvarpið sem þótti afar vinsælt hjá karli fyrir nokkru síðan. Þá fékk maður að vakna upp við og hlusta á suðið í því helvíti daginn inn og út, hvenær sem laus stund gafst var draslinu keyrt upp og niður götuna. Ég sendi því illar hugsanir og óskaði því dauða af mikilli innlifun og viti menn, á leið heim einn daginn varð mér litið á leifar af módelbíl dreift út um alla götu. Jamm, þetta var mjög ánægjulegt, en karmað kemur upp að manni og nú er karl kominn með mótorhjól.

Ég hef nú ekkert á móti þessum manni, hann er hörkuduglegur og nennir greinilega ekki að sitja auðum höndum og prófar nýja hluti. Mér er hins vegar ómögulegt að skilja hvers vegna hann fer ekki og uppgötvar heiminn fyrir utan Sundahverfið. Af hverju ekki að ganga alla leið ef maður er að þessu á annað borð - og í leiðinni að hlífa hormónasprengdum og megapirruðum dauðþreyttum foreldrum við hnjaski.